Rekstur klúbbsins gekk vel
Guðmundur endurkjörinn sem formaður GKB
Aðalfundur GKB fór fram í golfskálanum Kiðjabergi í gær og var fundurinn vel sóttur af félagsmönnum. Guðmundur Ásgeirsson var endurkjörinn sem formaður. Rekstur klúbbsins gekk vel og var um 19 milljóna króna hagnaður á árinu.
Rekstrartekjur á starfsárinu eru 125 milljónir og hafa aldrei verið hærri. Meðlimir klúbbsins eru nú 417 talsins, 62% karlar og 38% konur. Formaður lagði fram tillögu stjórnar að hækkun félagsgjalda fyrir árið 2026. Lagt var til að hækkun gjaldskrár verði um 14% og var það samþykkt samhljóða.
Stjórn klúbbsins var þannig skipuð síðasta starfsár: Guðmundur Ásgeirsson formaður, Brynhildur Sigursteinsdóttir gjaldkeri, Jónas Kristinsson ritari, Gunnar Þorláksson og Magnús Þór Haraldsson meðstjórnendur. Varamenn stjórnar sem taka fullan þátt í stjórnarstörfum eru Þórhalli Einarsson og
Sigurlaug Gissurardóttir. Stjórnin hélt 8 stjórnarfundi á árinu og er mjög góð samstaða í stjórn klúbbsins. Stjórnin verður óbreytt á nýju starfsári.
Guðmundur formaður flutti skýrslu stjórnar og sagði m.a.:
"Síðasta ár var mjög gott ár fyrir Golfklúbb Kiðjabergs. Reksturinn gekk vel, andinn í klúbbnum er mjög góður og völlurinn okkar var einstaklega glæsilegur og virkilega gaman að spila Kiðjabergið síðastliðið sumar. Einnig er mjög gaman að koma inn í golfskálann okkar en þar tekur Rakel og hennar starfsfólk á móti okkur með bros á vör. Þá endaði starfsárið einstaklega skemmtilega fyrir okkur því að Golfvöllur Kiðjabergs var valinn besti golfvöllur Íslands 2025 af World Golf Awards og var þetta í annað sinn í röð sem við vinnum þessi verðlaun. Þetta er einstaklega skemmtilegt fyrir okkur."
24 mót á árinu
GKB félagar spiluðu alls 6.392 hringi á árinu og samtals voru spilaðir 13.412 hringir í Kiðjabergi í ár. Meðalfjöldi hringja per meðlim í klúbbnum eru 15 hringir, en meðlimir spiluðu allt frá engum hring í sumar og upp í 70 hringi sem er sambærilegt við síðasta ár. 24 golfmót voru haldin í Kiðjabergi á árinu og er það sami fjöldi og á síðasta ári. Meistaramótið tókst mjög vel og tóku um 90 þátt í mótinu, sem er sami fjöldi og á síðasta ári, en rúmlega helmingur tók þátt í 2ja daga mótinu. Gull 24 Open var fjölmennasta mótið okkar en 295 tóku þátt í því og var það nánast sami fjöldi og á síðasta ári. GKB sendi fjórar sveitir í sveitakeppni golfklúbba. Það var meistaraflokkur karla, karlar 50 ára og eldri, konur 50 ára og eldri og karlar 65 ára og eldri.
950 vinnustundir í sjálfboðavinnu
"Völlurinn kom mjög vel undan vetri og var í mjög góðu standi í allt sumar og er óhætt að segja að Alin og hans starfsfólk hafi unnið mjög gott starf á vellinum við krefjandi aðstæður. Vinnudagur var haldinn 10. maí í
samstarfi við lóðafélagið og var ágætis mæting en um 50 manns mættu, helstu verkefni voru vökvunarkerfið, stígagerð, skemma, tyrfa og fleira. Gríðarlega mikið sjálfboðastarf hefur verið unnið af okkar bestu mönnum við að gera völlinn að besta golfvelli Íslands og áætlum við að u.þ.b. 950 vinnustundir hafi verið unnar í sjálfboðavinnu á árinu.
Nýtt vökvunarkerfi
Stór hluti af þeirri vinnu var unninn í byrjum september síðastliðinn þegar unnið var að lagningu nýs vökvunarkerfis á seinni hluta Kiðjabergsvallar ásamt æfingaflötum. Verkefnið var liður í markvissri uppbyggingu vallarins og mikilvægt skref í átt að betri umhirðu og auknum gæðum vallarins til framtíðar. Markmið verkefnisins er að tryggja jafna og skilvirka vökvun á þessum hluta vallarins til að bæta grassprettu auka ending flatanna og skapa betri aðstæður fyrir iðkendur. Með uppsetningu vökvunarkerfisins skapast mun meiri möguleiki á að stýra vökvun eftir þörfum, sem bæði eykur nýtingu vatns og stuðlar að heilbrigðari og sterkari gróðri. Verkið var unnið undir sterkri og faglegri handleiðslu Þórhalla Einarssonar sem stýrði framkvæmdinni af mikilli röggsemi og kunnáttu. Verkið naut jafnframts góðs undirbúnings og skipulagningar sem gerði það að verkum að vinnan gekk snuðru laust fyrir sig.
Þrátt fyrir að það sé góð afkoma af rekstri klúbbsins þá er það ekki sjálfgefið. Það er mikilvægt fyrir okkur að völlurinn sé í góðu standi, veðurfar hagstætt því að rúmlega 60 prósent af okkar tekjum koma frá golfvellinum og golfmótum. Tæplega þriðjungur tekna er af félagsgjöldum.
Góðir styrktaraðilar
Við erum mjög heppin hér í Kiðjabergi því við höfum marga og mjög góða styrktaraðila hér við klúbbinn en helstu styrktaraðilar okkar eru: Tengi, GG Verk, Steypustöðin, ÞG verk, TRI , Byko, Húsasmiðjan, Ölgerðin, Heimilistæki, Eykt, Hagi, Parki, Bygg, Íþaka, Timberland, BS eignir, Deloitte, BM Vallá, Garri ,S4S, 66 Norður, Sjónlag og Bílaleiga Akureyrar, Kvika banki og Iðnaðartækni. Vil ég þakka þeim kærlega fyrir stuðninginn. Ég vil hvetja alla félagsmenn að hafa þessa aðila í huga ef tækifæri er á að nýta sér þjónustu þessara frábæru styrktaraðila.
Að lokum vil ég þakka öllum félagsmönnum fyrir liðið ár og sérstaklega þeim sjálfboðaliðum sem koma og aðstoðuðu okkur við stjórnun og rekstur á GKB. Einnig vil ég þakka Guðna vélamanni fyrir vel unnin störf.
Ég vil þakka öllum stjórnarmönnum og öllum nefndarmönnum fyrir vel unnin störf og þá sérstaklega mótanefnd, vallarnefnd og kvennanefnd. Ég vil þakka Rakel sérstaklega fyrir gott starf í golfskálanum. Svo að
lokum þakka ég Þórði framkvæmdastjóra sérstaklega fyrir vel unnin störf fyrir GKB, en eins og flestir vita er Þórður að hætta hjá okkur um næstu áramót."
Myndir frá aðalfundi/Valur Jónatansson










