Draumahringur Skúla Gunnars!

Valur Jónatansson • 23. júlí 2025

"Leið eins og ég hefði getað spilað á 10 höggum undir pari"

Á lokadegi GJG Icelandic Juniors International 2025, sem spilað var á Kiðjabergsvelli í síðustu viku, sló Skúli Gunnar Ágústsson úr GKG vallarmetið af hvítum teigum. Hann lék á 64 höggum, eða 7 höggum undir pari - fékk 7 fugla og 11 pör. Hann bætti þar með vallarmet Arnars Snæs Hákonarsonar frá því 2012 um tvö högg, en áður höfðu þeir Birgir Leifur Hafþórsson og Örvar Samúelsson átt vallarmetið sem var 68 högg.


Skúli Gunnar er ný orðinn 19 ára gamall. Kemur frá Akureyri og kláraði stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri í vor. Hann er nú fluttur suður og er í GKG þar sem hann æfir undir handleiðslu Andrésar Davíðssonar golfkennara. Hann ætlar sér stóra hluti í golfinu í framtíðinni og hefur þegar fengið inngöngu í einn besta golf háskóla Bandaríkjanna, University of Louisiana-Lafayette, haustið 2026. Þetta er helsti Íslendingaskólinn í háskólagolfinu og meðal þeirra sem þarna hafa verið eru Úlfar Jónsson, Haraldur Franklín, Aron Snær og Ragnar Már. 


Um hringinn góða á Kiðjabergsvelli sagði hann: “Það gekk ótrúlega vel hjá mér á þessum hring. Var að slá mjög vel og kom mér í fullt af sénsum. Mér leið eins og ég hefði getað spilað á 10 höggum undir pari. Á sjöttu holu (par-4) sló ég inn á flöt af teig með 4-járni og var svekktur að þrípútta þar og fá bara par. Veðrið var frábært þennan dag, logn og sól og völlurinn í flottu standi. Þetta er besti hringur sem ég hef spilað í móti til þessa á ævinni,” sagði Skúli Gunnar kampakátur.


Einn af mínum uppáhalds
“Mér finnst völlurinn mjög fjölbreyttur og skemmtilegur. Frábært landslag og ég mæli með því fyrir alla kylfinga að spila völlinn. Þetta er einn af mínum uppáhalds völlum, ekki nokkur spurning. Mínar uppáhalds holur á vellinum eru 6. og 7. holan, en margar aðrar mjög flottar.”


Hann segir að golfið hafi verið að smella inn hjá sér eftir því sem liðið hefur á sumarið. “Ég er yfirleitt góður af teig og svo hafa járnin verið mjög sterk og ég er oftast að koma mér í góð færi. Svo er þetta alltaf spurning um hvort pútterinn er heitur eða kaldur.”


Skúli hefur lækkað sig í forgjöf í sumar, byrjaði sumarið í +1,5 og hækkaði svo upp í +0,7, en er núna kominn niður í +3,0. Það verður gaman að fylgjast með þessum efnilega kylfingi í framtíðinni og við óskum honum enn og aftur til hamingju með glæsilegt vallarmet.


Hér fyrir neðan má sjá skorkort Skúla:


Eftir Valur Jónatansson 20. júlí 2025
Vallarmetið slegið - 64 högg af hvítum teigum!
Eftir Valur Jónatansson 14. júlí 2025
Svanur Þór náði draumahögginu!
Eftir Valur Jónatansson 8. júlí 2025
Spilaði á 5 höggum undir aldri á lokadegi meistaramóts GKB
Eftir Valur Jónatansson 7. júlí 2025
Stuð og stemmning í lokahófi meistaramóts GKB
Eftir Valur Jónatansson 5. júlí 2025
Veðrið lék við keppendur í meistaramóti GKB!
Eftir Valur Jónatansson 5. júlí 2025
Metþátttaka í meistaramóti GKB
Eftir Valur Jónatansson 3. júlí 2025
Magnús og Bergljót leiða í 1. flokki karla og kvenna
Eftir Valur Jónatansson 2. júlí 2025
Gunnar Þór Heimisson klúbbmeistari karla GKB 2025!
Eftir Valur Jónatansson 1. júlí 2025
Meistaramótsvika GKB!
Eftir Valur Jónatansson 29. júní 2025
Aron Emil og Gunnar Þór léku á 68 höggum!