Golfbolinn - landsmót golfhópa!
Hver er besti golfhópur Íslands?

Golfklúbbur Kiðjabergs stendur fyrir golf-liðamóti dagana 4. og 5. september nk. Mótið ber heitið Golfbolinn og er einskonar landsmót golfhópa á Íslandi. Aðeins 16 lið komast í mótið og geta að hámarki verið átta kylfingar en lágmark sex í hverju liði. Í hverri umferð spila sex kylfingar hverju sinni og tveir varamenn þ.e.s. ef lið eru með hámarksfjölda varamanna.
Nokkrir hópar hafa þegar skráð sig og aðrir sýnt þessu mikinn áhuga. Hinsvegar gildir í þessu eins og öðru, fyrstur kemur fyrstur fær. Ef lið eru of lengi að hugsa sig um er hætta á að fá ekki pláss. Það er því um að gera að senda tölvupóst á, gkb@gkb.is eða hringja í 486-4495 og skrá sig sem fyrst.
Í samtali við Kylfing.is útskýrði Þórður Rafn Gissurarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kiðjabergs, hvernig mótið kom til. „Ég hef farið reglulega með mínum vinahópi að keppa í Pollamótinu á Akureyri sem er fótboltamót í bumbubolta en þetta er árlegur viðburður hjá okkur. Ótrúlega gaman að fara með félögunum, keppa á móti öðrum liðum, skemmta sér og njóta. Það hefur blundað í mér hvort að það væri hægt að búa til golfútgáfu af þessu móti. Það er fullt af golfhópum, karla, kvenna og blandaðra á Íslandi og mér fannst líklegt að það væri vettvangur að halda golfmót þar sem keppt er um hver er besti golfhópur landsins.“
Hvernig verður leikfyrirkomulagið?
„Það svipar til Íslandsmóts klúbba. Byrjað er á því að kvöldi 3. september, að lið koma saman í kúbbhúsinu, snæða burger og rennandi með því í boði mótsins og dregið er í riðla. Það verður einnig pub quiz í boði þar sem lið keppa um hvaða hópur er gáfaðasti golfhópur landsins.
Eftir það er liðum raðað í fjóra fjögurra liða riðla og spilaðar þrjár umferðir af 9 holu holukeppni m. forgjöf á móti hinum liðunum í riðlinum. Topp tvö liðin í hverjum riðli spila um sæti 1 til 8 og neðri tvö um sæti 9 til 16. Leikirnir eru spilaðir 4. og 5. september. Allt í allt eru þetta sex umferðir, þ.e. sex holukeppnisleikir en síðasta umferðin er 18 holu holukeppni m. forgjöf. Síðasta kvöldið verður lokahóf þar sem verður verðlaunaafhending, dýrindis kvöldverður og skemmtun langt fram á kvöld,“ segir Þórður Rafn.
Mótið er í raun fyrir alla kylfinga óháð forgjöf. Hóparnir geta hafa verið stofnaðir fyrir 30 árum eða í síðustu viku. Geta verið kylfingar með +5 í forgjöf eða 36 og þvert á aldur þó svo að við miðum við að liðsmenn séu 20 ára eða eldri. Hámarks vallarforgjöf í mótinu verður 24 fyrir karla og 32 fyrir konur og krafa um að liðsmenn séu með gildandi forgjöf, hafi spilað allavega þrjá golfhringi til forgjafar á þessu ári. Verðlaunin fyrir efstu þrjú sætin verða flott. Einnig verða nándarverðlaun alla daga.
Mótið er góður vettvangur til að mynda nýjan golfhóp sem bætist við þann mikla fjölda golfhópa sem nú þegar eru starfræktir. Það verður fyrst og fremst keppt um montréttinn, að vera besti golfhópur landsins. Sigurliðið fær farandbikar. Verðlaunin koma frá samstarfsaðilum, sem eru Boli (Ölgerðin), 66 Norður og fleiri frábær fyrirtæki.
Mótsgjaldið er 30 þúsund krónur á mann þ.e.s. 180 þúsund krónur m.v. 6 manna lið. Ef það eru aukamenn bætist við 30 þúsund krónur per aukamann. Þetta verður "grand" mót og alvöru slútt á sumrinu.
Fréttin er unnin upp úr viðtali við Þórð Gissurarson, framkvæmdastjóra GKB, á vefnum kylfingur.is.