Aðalfundur GKB

feb. 13, 2021

13 milljóna króna hagnaður hjá GKB

Afkoma Golfklúbbs Kiðjabergs hefur sjaldan eða aldrei verið betri en á síðasta starfsári, að því er fram kom á aðalfundinum um liðna helgi. Klúbburinn skilaði13 milljóna króna hagnaði og rúmlega 15 þúsund hringir voru spilaðir á vellinum síðasta sumar. Mikil framkvæmdagleði var á liðnu ári. Í lok starfsársins voru skráðir meðlimir Golfklúbbs Kiðjabergs 332 talsins, 204 karlar og 128 konur.

Aðalfundur GKB haldinn á golfskála klúbbsins í Kiðjabergi 6. febrúar 2021 kl. 13.00
Formaður GKB Börkur Arnviðarson setti fundinn, sem var vel sóttur ( rétt 40 manns í tveimur hólfum samkvæmt reglum um sóttvarnir ) og bauð fundarmenn velkomna. Hann lagði til við fundinn að Hjörleifur B. Kvaran yrði fundarstjóri og Jónas Kristinsson fundarritari. Ekki voru gerðar athugasemdir við þær tilnefningar.

1. Fundarstjóri tók við stjórn fundarins og lýsti hann löglegan. Fyrsta mál á dagskrá var lestur fundargerðar aðalfundar frá fundi í desember 2019

2. Ritari stjórnar las fundargerð aðalfundar sem haldinn var 7. desember 2019. Fundargerð samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2020
Formaður gerði grein fyrir störfum stjórnar og klúbbsins á starfsárinu, sem var eitt
það besta í sögu GKB. Tekjur og afkoma með besta móti. Veturinn var vellinum
hliðhollur og kom hann vel undan vetri.
Góðir félagar. 2020 er rekstrarlega eitt besta ár í sögu Golfklúbbs Kiðjabergs, gott
golfveður var í allt sumar, völlurinn í mjög góðu ástandi og mikið spilað. Tekjurnar góðar
og afkoman með besta móti. Í lok starfsársins voru skráðir meðlimir Golfklúbbs
Kiðjabergs als 332, 204 karlar og 128 konur.
Stjórn klúbbsins var þannig skipuð, Börkur Arnviðarson formaður, Brynhildur
Sigursteinsdóttir gjaldkeri, Jónas Kristinsson ritari, Gunnar Þorláksson og Magnús Þór
Haraldsson meðstjórnendur, Ágúst Friðgeirsson og Jens Magnús Magnússon varamenn
sem tóku fullan þátt í öllum störfum stjórnar.

Á starfsárinu hafa látist þrír núverandi og fyrrverandi félagar í Golfklúbbi Kiðjabergs það eru ;
- Gunnar Sigurðsson sem lést 14. desember 2019,
- Ástþór Runólfsson, einn af stofnfélögum okkar, lést 2. febrúar,
- og Guðrún Halldórsdóttir sem lést 15. júní.
Vil ég biðja fundargesti um minnast þeirra með því að rísa úr sætum.

Völlurinn kom mjög vel undan vetri og vorum við að mestu laus við vandamál vegna kals. Vinnudagur var í samstarfi við Lóðarfélagið laugardaginn 16 maí og var framúrskarandi þátttaka, en nær liggur að um 100 manns hafi tekið þátt, þannig að það lætur nærri að þriðji hver félagsmaður hafi látið til sín taka. Með þennan öfluga flokk var ýmsu komið í verk, og meðal verkefna var; stígar rakaðir, tré snyrt, glerskilti hreinsuð og pússuð, rólur málaðar, gömlu bekkirnir sem voru í ræsishúsinu pússaðir og borið á þá, borið á stóru auglýsingaskiltin á teigunum, lagað til niður við skemmu, lagað til í áhaldahúsi, rusl týnt meðfram vegum, klárað að fylla í skurð þar sem rafmagn var lagt fyrir golfbíla, hrífur og lengdarmælingar merki máluð, steypt fyrir nýju skilti á 11., klósettaðstaða á tjaldsvæði þrifin og nýja vélaskemman ulluð. Að lokum var flaggað við
skála og upp við þjóðveg og svo var boðið uppá pylsur á eftir í skálanum. Klúbburinn þakkar öllum þessa frábæru þátttöku.

Á vormánuðum fengum við til liðs við okkur gamla vallarstjórann okkar, Birki Má Birgisson sem starfaði hjá okkur sem framkvæmdastjóri. Vallarstjórinn frá í fyrra, Bill Hiero, hóf störf hjá okkur á vormánuðum, ásamt 1 breskum aðstoðarmanni en vegna farsóttar þá hugðist þeim ekki að einangra sig hér á landi þannig að þeir yfirgáfu okkur. Þá tókst okkur að næla í annan af okkar gömlu vallarstjórum, hann Stein Ólafsson, þannig
að áður í sögu vallarins höfum við varla búið að jafn mikilli reynslu og þekkingu við hirðingu og framkvæmdir á vellinum. Það hefur heldur ekki farið á milli mála að þessir vinnuþjarkar báðir hafa séð til þess að völlurinn í ár var í yfirburða góðu ástandi. Þar að auki komu 4 manns að daglegri hirðu vallarins í sumar, og eins og á liðnum árum þá nutum við aðstoðar hóps krakka á vegum Landsvirkjunar, og þökkum við þeim öllum
innilega fyrir frábært starf. Birkir mun halda áfram hjá okkur og unnið er að því að ráða mann honum til aðstoðar við vallarstarfið.

Reyst hefur verið ný vélaskemmu sem kemur sér vel til að tryggja góða aðstöðu til geymslu á tækjum okkar og golfbílum. Í sumar var nýja skemman kláruð, hurð var sett upp, skemman var einangruð og klædd, máluð og ljós sett upp.

Golfskálinn var málaður að innan og sett upp ný gluggatjöld. Skipt var um nokkur tæki í eldhúsi, fúguviðgerðir á útveggjum suðurhliðar og gluggar yfirfarnir og lagaðir. Stefnt er að því að taka inn hitaveitu. Ræsiskúrinn var yfirfarinn og skipt var um þakkant hann málaður.

Á haustmánuðum var ráðist í miklar framkvæmdir við völlinn, þar sem fjölmargir félagar klúbbsins mættu til starfa og undir stjórn starfsmanna klúbbsins áorkuðu ótrúlega miklu, sem við komum til með að njóta góðs af næsta sumar og langt inní framtíðina. Gríðarleg vinna fór í stíga þar sem keyrt var í þá meira og betra efni, þeir sléttaðir og reynt að minnka brekkur í þeim. Eins voru þeir margir breikkaðir þar sem þess var þörf . Báðar brýrnar yfir lækinn, á 2. og 9. voru lagaðar. Steypt var plata á æfingarsvæðið, og þar verða 12 gervigrasmottur næsta sumar. Gerð voru 2 klósett úti á velli með rotþró og rennandi vatni. Steypt var í kringum skálann og eins var lögð ný plata undir útleigubílana okkar, og svo var bílaplanið mulið og heflað.

Stór hópur manna og kvenna kom að þessum framkvæmdum og grófleg samantekt á fjölda tíma sem inntir voru af hendi skipta þúsundum. Þetta svarar því í raun til fjölmargra vinnumánaða og með því að brjóta höfuðið yfir hverjir þetta voru, að sjálfsögðu að viðbættum starfsmönnum okkar, þá hafa komið fram um 20 nöfn. Hér í stafrófsröð: Árni Jóhannesson, Árni Sveinbjörnsson, Bergur Sandholt, Birkir Birgisson, Gunnar Dagbjartsson, Gunnar Þorláksson, Jóhann Steinsson, Jón Bjargmundsson, Jónas Kristinnson, Magnús Haraldsson, Ottó Þormar, Pétur Guðmundsson, Pétur Haraldsson, Rannveig Raymondsdóttir, Skúli Hróbjartsson, Stefán Aðalsteinsson, Steinn Ólafsson, Sveinn Ottósson, Tryggvi Valdimarsson, Þórhalli
Einarsson.

Frá upphafi var vitað að þetta sumar yrði um margt öðruvísi, því GSÍ innleiddi GolfBox og nýtt forgjafakerfi. Hvortveggja þurfti að tyggja aðeins áður en það gekk niður, en miðað við umfangið á því sem ráðist var í þá er það skoðum flestra að um framfarir hafi verið að ræða. Varðandi ýmis atriði varðandi stjórnun á starfsemi klúbbsins hefur alla vega verið stigið mjög þarft skref inn í framtíðina. Engan grunaði þó að það yrði einn af minnstu lífverum jarðarinnar sem myndi koma til með að hafa aðalhlutverkið. Í upphafi voru settar miklar skorður á golfiðkun vegna Covid, en það var fljótlega slakað þónokkuð á þeim, þannig að segja má að langt framá haustið þá var okkur kleift að spila golf og halda uppi nokkuð eðlilegu félagsstarfi. Þar sem skipt var um skráningarkerfi á GOLF.IS þá er ekki alveg öruggt að bera saman tölur yfir spilaða hringi, en varlega áætlað var um 30-40% aukning í fjölda spilaðra hringja í 2020 miðað við 2019, eða sem svarar til liðlega 15,000 hringi, sem trúlega er nálægt hámarksfjölda hringja á Kiðjabergsvelli, nema ef veruleg aukning verði á spili á virkum dögum. Oft er það veður sem hefur mikið að segja um þetta,  í ár var veðrið mjög gott, en trúlega hefur Faraldurinn haft mikið að segja í ár, þar sem fólk fór ekki í golfferðir erlendis eins og fyrri árin, og spilaði því á heimavelli í meira mæli. Enda er áætlað að rúmlega 50% fleiri gestaspilarar hafi leikið völlinn í ár en í fyrra.

Klúbburinn fór í það að yngja upp og auka við flota golfbíla sem eru til leigu hjá okkur, með því að fjárfesta í 5 rafmagnsbílum, og kom það sér vel því fleiri sóttu völlinn okkar heim. Við þessi kaup nutum við sérlega góðrar aðstoðar Bílaleigu Akureyrar og eiga þeir kærar þakkir fyrir það. Áætlað er að rúmlega 60% fleiri útleigur á golfbílum hafi verið í ár. Það er ætlun Stjórnarinnar að halda þessari yngingu bílaflotans áfram í framtíðinni, og stefnt er að því að við ráðum yfir um það bil 20 bílum í framtíðinni þar sem flestir þeirra
verða rafdrifnir. Í þessu sambandi er vert að koma því að hér, að Guðni Björnsson hefur veitt okkur ómetanleg hjálp við að halda bensínbíla-flota okkar gangandi, þar sem margir bílanna eru komnir til ára sinna. Guðni er okkar maður þegar kemur að viðhaldi á tækjum okkar hvort sem það eru sláttuvélar eða golfbílar, stórt verkefni sem unnið hefur verið af mikilli fórnfýsi, kærar þakkir fyrir það Guðni.

Fjárhagsleg afkoma klúbbsins var mjög viðunandi, eins og fram kemur í Ársreikningum ársins. Tekjur voru um 63 miljónir, sem er um 14% aukning frá fyrra ári, en útgjöld voru um 50 miljónir, sem er um 25% aukning frá 2019. Á tekjuhliðinni voru vallargjöld sá liður sem hækkaði mest, en mestur samdráttur var í tekjum af mótahaldi sem drógust saman um 40%.

Af útgjöldum hækkaði launakostnaður og viðhald vallar mest. Varðandi launakostnað var við því búist þar sem við í fyrsta skipti í mörg ár höfðum framkvæmdastjóra á launum. Það hefur komið klúbbnum mjög vel að þessi vinna hefur verið innt af hendi í ólaunuðu starfi um árabil, og hefur það verið stór þáttur í því að gera fjárhagsstöðu okkar eins góða í dag og raun er. Þórhalli á því skilið okkar bestu þakkir fyrir það, og vill ég svo líka benda á að hann er enn í dag betri en enginn, og hefur í ár unnið ómetanlegt starf á bakvið tjöldin.

Í upphafi og frameftir sumri bauðst okkur aðstoð við að ryðhreinsa, smyrja og bæta allar tæknihliðar golfsins því "Strákarnir hans Snorra" stóðu fyrir 4 golfæfingadögum, okkur að kostnaðarlausu, þar sem tekið var fyrir Pútt, Vipp og sandur, Járnahögg og svo Driver og brautartré. Allar þessar æfingar voru mjög vel sóttar og voru þátttakendur mjög ánægðir. Þetta var kærkomin nýung og við vonumst til að þetta frábæra framtak verði endurtekið í sumar.

Mótanefnd stóð sig með ágætum að venju og hélt utanum mót sumarsins. Á Kiðjabergsvelli voru haldin als 25 mót í sumar, þar af voru mót á vegum GKB 7 talsins, 3 kvennamót voru haldin og svo fóru fram 15 mót á vegum utanaðkomandi aðila, en fólk á vegum GKB kemur þar við sögu að mismunandi marki. Als eru skráðir 1.725 leikmenn í hinum ýmsu mótum sumarsins.

Meistaramót GKB var haldið dagana 15 til 18 júlí. Akkúrat þessa daga sýndi veðrið á sér hið versta snið með miklu hvassviðri, þ.a. aflýsa þurft öllum leikdögum nema þeim síðasta, þannig að einungis var spiluð 1 umferð í öllum flokkum nema meistaraflokki karla, sem spilaði 2 hringi á lokadeginum. Klúbbmeistarar Golfklúbbs Kiðjabergs 2020 voru krýndir Sturla Ómarsson í meistaraflokki karla og Brynhildur Sigursteinsdóttir í
meistaraflokki kvenna. Alls voru þátttakendur í mótinu 84 og leikið var í 10 flokkum. 

Að venju var umfangsmikið starf á vegum kvennanefndarinnar í ár, meðal annars spil eftir vinnu á föstudögum og ýmis mót. Gert verður betur grein fyrir þessu seinna á Aðalfundinum. Þetta frábæra starf sem farið hefur vaxandi í gegnum árin er nú orðið það umfangríkt og blómstrandi að þetta er orðin alvarleg áskorun til karla um að taka sig saman:-)

Að venju skráði GKB 3 flokka til leiks í Íslandsmóti Golfklúbba, þar sem meistaraflokkur lék í 2. deild karla, Kvennasveit eldri kylfinga spilaði í 2 deild, og Karlasveit eldri kylfinga spilaði í 2 deild. Meistaraflokkur karla spilaði á Akranesi og varði sæti sitt í deildinni. Kvennasveitin spilaði í Vestmannaeyjum og lenti í 2. sæti efir tap fyrir heimakonum. Ekki tókst að manna Karlasveit eldri kylfinga í ár, og urðum við því miður að afboða okkur í mótið, sem þýðir að sveitin þarf að leika í 3. deild að ári.

Sem fyrr þá eru margir aðilar sem koma okkur til aðstoðar á ýmsan hátt. Þetta eru hinir ýmsu styrktaraðilar sem oft, án þess að fá mikið annað en ánægjuna í sinn hlut, veita okkur ómetanlega aðstoð. Helstu styrktaraðilar eru Ölgerðin, TWG-ZIMSEN, TENGI, ÞG-verktakar, BYKO, Nesexpresso, Hagi-Hilti, Parki, BYGG, Höldur, Verkfærasalan, Bakarameistarinn, NOVA, BS-eignir, BM-Vallá, Húsasmiðjan, Olís, Íslandsbanki, Garri,
ÁF- hús og Klakkur. Ég vil biðja alla félagsmenn að hafa þessa aðila í huga ef tækifæri er á að nýta sér þjónustu þeirra á einhvern hátt.

Eins og áður sá Rakel Kaffi-Kið um veitingarekstur, stóð sig með miklum ágætum eins og áður. Og erum við mjög ánægð með að hún ætlar að halda áfram með okkur og standa vaktina í skálanum í sumar.

Að lokum vill ég draga saman mína upplifun á þessu golfári, og það er ekki svo mikið það sem fram fór á okkar yfirburða góða golfvelli, sem mér eru efst í huga, heldur öll sú frábæra þátttaka félagsmanna "utan golfvallar", svo sem frábær vinnudagur, golfæfingar að ógleymdum allri þeirri vinnu sem innt hefur verið af hendi við endurbætur og viðhald. Ég held að öllu er á botninn hvolft þá er það þetta sem skilgreinir Golfklúbb Kiðjabergs og gerir okkur að þeim falda eðalsteini sem við erum, nokkuð sem hvað best sést hér í skálanum og á pallinum á góðum stundum. Yfir þessu getum við öll verið stolt, því þetta er sannanlega framtak félagsmanna. Að endingu vill ég svo óska öllum gleðilegs golfsumars, með von um að óværan komi ekki til með að hemja okkur í golfinu í sumar. 
Fyrir hönd stjórnar, Börkur Arnviðarson

5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram
Brynhildur Sigursteinsdóttir gjaldkeri stjórnar las yfir ársreikning 1/11 2019 - 31/10 2020
Hagnaður Golfklúbbs Kiðjabergs fyrir starfsárið 13 .395.479.- Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 66.521.608
Reikningar og skýrsla stjórnar samþykktir.
6. Lagabreytingar
Stjórn klúbbsins með dyggri aðstoð Hjórleifs B. Kvaran lagði fram nokkrar breytingar á lögum félagsins.
Lög Golfklúbbs Kiðjabergs
01. grein Félagið heitir Golfklúbbur Kiðjabergs, skammstafað G.K.B. Klúbburinn er aðili að Golfsambandi Íslands, skammstafað G.S.Í.

02. grein Markmið klúbbsins er rekstur golfvallar í landi Kiðjabergs í Grímsnesi, kynning á golfíþróttinni og iðkun hennar. Eigandi jarðarinnar Kiðjaberg er Kiðjaberg ehf og verður gerður samningur á milli
aðila um afnot golfmannvirkja.

03. grein Klúbburinn er öllum opinn og skal sækja skriflega um inngöngu til stjórnar klúbbsins. Inntaka nýrra félaga er háð samþykki stjórnar. Úrsögn er bundin við áramót og berist hún skriflega fyrir lok desembermánaðar.

04. grein Reiknisár klúbbsins er frá 1. nóvember til 31. október.

05. grein Stjórn Golfklúbbs Kiðjabergs skipa fimm félagsmenn og tveir til vara. Stjórnin skal kosin á aðalfundi. Formann stjórnar skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Aðalfundur kýs árlega tvo menn í aðalstjórn og einn í varastjórn til tveggja ára í senn.
Stjórnin ákveður verkaskiptingu sína á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
Fundargerðir skulu haldnar um fundarstörf stjórnar.
Ársreikningar félagsins skulu endurskoðaðir af tveim skoðunarmönnum sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til eins árs í senn.

06. grein Stjórn klúbbsins hefur yfirumsjón með framkvæmdum á golfvellinum og rekstri hans. Hún skipuleggur sumarstarfið og mótahald og stjórnar því. Stjórnin gerir tillögur til aðalfundar klúbbsins um félagsgjöld. Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. desember ár hvert og nægir að boða til fundarins á vefsíðunni golf.is heimasíðu Golfklúbbs Kiðjabergs gkb.is. og jafnframt með tölvupóst á félagsmenn samkvæmt netfangaskrá á golf.is. Aðalfund skal boða með a.m.k. 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. 
Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
1. Fundarstjóri og fundarritari kosnir.
2. Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári.
3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
4. Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga klúbbsins.
5. Lagabreytingar kynntar og teknar til afgreiðslu.
6. Tilaga stjórnar um félagsgjöld lögð fram.
7. Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna samkvæmt samþykktum lögum
klúbbsins.
8. Önnur mál.
Fundargerð aðalfundar skal birt á heimasíðu félagsins innan hálfs mánaðar frá fundi.
Til almenns félagsfundar boðar stjórn ef henni þykir þurfa, eða ef minnst 10
félagsmenn leggja fram skriflega kröfu þar um. Boða skal til fundarins með sama
hætti og boðað er til aðalfundar.

07. grein Atkvæðarétt á aðalfundi og almennum félagsfundi hafa allir skuldlausir og viðstaddir félagar, 16 ára og eldri. Afl atkvæða ræður nema annars sé getið í lögum þessum.

08. grein Við golfleik skal fara eftir St. Andrews golfreglum eins og þær eru hverju sinni og þeim reglum sem Golfsamband Íslands setur um íþróttina. Stjórn klúbbsins getur sett staðarreglur um leikinn, um umferð og umgengni um golfvöllinn og golfskála og er leikmönnum skylt að hlíta þeim.

09. grein Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi klúbbsins og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til.
Tillögur til breytinga á lögum skulu hafa borist stjórninni eigi síðar en 30 dögum fyrir aðalfund og skal þeirra getið í fundarboði.

10. grein Komi fram tillaga undirrituð af a.m.k. 15% skuldlausra félaga um að klúbburinn hætti störfum, skal hún tekin fyrir á lögmætum fundi sem stjórnin boðar til með sama hætti og um aðalfund væri að ræða.
Fundurinn er ályktunarhæfur ef minnst helmingur félagsmanna sækir fundinn og tillagan fær gildi ef minnst 2/3 fundarmanna samþykkja hana. Sé þátttaka ekki næg skal boða til nýs fundar innan þriggja vikna og er hann ályktunarhæfur sé löglega til hans boðað án tillits til fundarsóknar.

11. grein Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt samhljóða

7. Félagsgjöld
Formaður lagði fram tillögu stjórnar að breytingum og hækkun félagsgjalda fyrir árið 2021. Lagt er til að almenn hækkun verði u.þ.b. 3,5%. Þessi hækkun er nokkuð svipuð og verið hefur síðustu 3 ár (3.1% til 4.3%).

Lagt er til að breyta gjaldskránni þannig að Félagsgjald verði sett sem 50% af Hjónagjaldi sem við höfum verið með um árabil. Ástæðan fyrir þessari tillögu er einföldun á gjaldskrá, til að auðvelda vinnslu. Einstaklingar munu við þetta greiða aðeins lægra gjald en í 2020 og Einstaklingar 70+ munu aðeins hækka um 500 kr Þetta mun hafa lítil áhrif á álögð félagsgjöld þar sem fjöldi einstaklinga í klúbbnum er ekki hár. Áætlað er að þessi áhrif, miðað við halda óbreyttri gjaldskrá, sé lækkun um minna en 1% á innheimtum
félagsgjöldum. Félagsmenn greiða jafnframt kr 7.500 per mann sem inneign í veitingarsölu.

Eftirfarandi tillaga að félagsgjöldum fyrir árið 2021
Félagsgjald 82..500 kr.
Fjölskyldugjald 5.000
Félagsgjald 70 og eldri 72.500
Barn/Unglingur til og með. 25 ár aldri 29.000
Námsmaður 45.000
Golfbílagjald 21.000
Fjargjald 31.000
Inneign í skála 7.500
Búsettur Erlendis 31.000
Samþykkt samhljóða

8. Kosning stjórnar.
Formaður: Börkur Arnviðarson
Meðstjórnendur til tveggja ára: Gunnar Þorláksson og Brynhildur Sigursteinsdóttir
Varamenn í stjórn: Jens Magnús Magnússon og Ágúst Friðgeirsson
Skoðunarmenn: Gunnar Dagbjartsson og Jenetta Bárðardóttir
Samþykkt með lófarklappi fundarmanna.
Fyrir í stjórn eru: Magnús Haraldsson og Jónas Kristinsson.

9. Skýrsla kvennanefndar
Guðrún S Eyjólfsdóttir fór yfir starfsemi kvennanefndar á árinu 2020.
Kvennanefnd GKB – samantekt um starfið 2020.
"Góðan daginn ágætu fundargestir.
Kvennastarfið var mjög blómlegt í ár þrátt fyrir ýmsar takmarkanir út af sotlu... Starfið hófst með föstudagsgolfi 29. maí en spilað var föstudagsgolf 10 föstudaga – 9 holur og tóku alls 33 konur þátt sem er svipaður fjöldi og 2019. Að leik loknum settist meginþorri þátttakenda að snæðingi í skála...

Kvennamót:
Á mótaskrá voru 4 kvennamót s.l. sumar en þrjú urðu að veruleika sem öll voru mjög vel sótt.

Fyrsta mótið var Vinkvennamót GKG-GKB var nú haldið í þriðja sinn 7. júní og var þátttaka jafngóð og 2019. Alls luku 84 konur leik í blíðskaparveðri, en ræst var út af öllum teigum og var gott “rennsli” á vellinum þrátt fyrir mikinn fjölda. Það er ljóst að þetta mót er komið til að vera. Vinningar voru glæsilegir vinningar að mestu í boði Taramar sem styrkir sérstaklega starf GKG.

Til stóð að bikarkeppni GKB og Öndverðaness færi fram í Kiðjabergi sunnudaginn 14. júní. Þar sem stefndi í mjög slaka þátttöku var ákveðið að fresta mótinu þar til síðar um sumarið en hlutir æxluðust þannig að af mótinu varð ekki en gerum ráð fyrir að það verði í júní n.k.

Opna Kerastase mótið
Þann 19. júli var haldið opið kvennamót sem fyrr í júlí og þátttaka svipuð og 2019 en 65 konur víða að luku leik.
Um var að ræða nýjan styrktaraðila sem lagði til einkar glæsileg teiggjafir og verðlaun.

Pilsaþytur
Föstudaginn 31. júlí var Pilsaþytur glæsilegt mót sem er kostað af ByggingafélagiGunnars og Gylfa, Bygg! Að þessu sinni mættu 24 lið í þokkalegasta veðri. Það var mikið fjör – mikið gaman.  ið kunnum Byggu miklar þakkir fyrir höfðinglegan stuðning og glæsilegt mót. Sannkallað gleðimót sem vonandi er komið til að vera!

Lokahóf.
Þann 11. september var haldið lokahóf/uppskeruhátíð kvennagolfsins þar sem sumarið var gert upp og veittar viðurkenningar fyrir ástundun og fleira. Alls mættu um 30 konur. Birkir okkar kom á fundinn og upplýsti um yfirstandandi framkvæmdir og það helsta sem væri á döfinni hjá klúbbnum Var gerður góður rómur að og mikið spurt og spjallað.

Niðurlag
Kvennanefndin er mjög samhent en í henni voru auk mín: Stella Hafsteins, Sigurlaug Guðmunds “Silla” og Sigrún Ragnarsd og vil ég nota tækifærið og þakka þeim gott samstarf. Stella hefur nú yfirgefið nefndina og á hún miklar þakkir skyldar fyrir sitt framlag síðustu árin. Nýjar í nefndinni 2021 eru Áslaug Sigurðardóttir og Anna Kristín Einarsdóttir, góður liðsauki.
Við viljum þakka stjórn klúbbsins framkvæmdastjóra fyrir góðan stuðning við starfið. Næsta golfár stefnum við að því að gera meira af því sama og hugsanlega verða einhver nýmæli, kemur í ljós. Vonandi verður veður eins gott og s.l. sumar og því mikið spilað á okkar glæsilega velli.
Takk fyrirþ

10. Önnur mál
Birkir framkvæmdastjóri GKB fór yfir helstu verkefni sem verið hafa í gangi frá haustinu. Mikil framkvæmdagleði og fjölmargir sem aðstoðuðu við fjölbreytt verkefni s.s. byggingu tveggja salerna á vallarsvæði, jarð- og steypuvinnu við æfingasvæði og klúbbhús sem og nýjum steyptum palli fyrir golfbíla í eigu klúbbsins. Einnig lagfæringar á bílastæðum og endurbætur á stæðum við teiga á golfvellinum.
Sérstakar þakkir fær Þórhalli sem og þeir fjölmörgu sjálfboðaliða sem komu að verkefnunum. Vinna sjálfboðaliða er ómetanleg og gera má ráð fyrir því að rúmlega 2.500 vinnustundir hafi verið unnar af þeim.

Skýrsla Birkis
Til að renna snögglega yfir framkvæmdir sem gerðar voru sumarið 2020 er helst þetta. Golfskáli málaður að innan að hluta og settar upp nýjar gardínur. Skúr við 18 flöt lagaður og málaður upp á nýtt. Unnið af krökkunum hjá Landsvirkjun. Fengum þennan hóp til okkar í um það bil 2 vikur 5 krakka í senn. Steinahreinsuðum glompur vallarins og bættum um það bil 30 m3 af sandi. Býst við að við getum fengið
þennan hóp til okkar næstu sumur. Áttum allavegana mjög góð samskipti við Landsvirkjun. Nýja skemman kláruð, ulluð og klædd, máluð og svo rafmagn sett upp í henni (gert af sjálfboðaliðum fyrir utan rafmagnið). Kaffistofa starfsmanna í skemmunni tekin í gegn settir upp nýjir skápar undir leirtau og starfsmannaskápar keyptir og settir upp.

Í haust var svo ráðist í eftirfarandi:
Steypt 36m plata á æfingarsvæðið. Þar snæsta sumar verða 12 mottur sem hægt verður að slá af. Eins er í pöntun ný boltavél sem tekur fleiri bolta, eins er hún með posakerfi svo hún verður opin allan sólarhringinn.

Sett voru upp 2 klósett úti á velli sem nýtast eins og 4. Þau eru staðsett við 12 og 16 teiginn og á leið upp á 4 teig fyrir aftan 8 teiginn gula. Þau voru smíðuð inni í skemmunni okkar af sjálfboðaliðum.

Hellur og steinaveggur þar sem golfbílarnir voru var tekinn niður og steypt plata þar. Þar munu næsta sumar verða 22 bílar í leigu. Við erum að fá 10 nýja rafmagnsbíla svo þeir verða þá 15 rafmagns og 7 bensín bílar.

Hellur sem voru fyrir framan skála voru teknar upp og steypt plata í staðinn. Eins nær hún upp fyrir að norðan verðu, þar sem einnig verður sett lítið þvottarplan. Í alla þessa steypuvinnu fóru um 53 rúmmetrar. Þar skal tekið fram að þetta var að mestu gert í sjálfboðavinnu.

Svo var það aðalmálið!!!!!! Stígarnir. Byrjað var að klára nokkra stígenda og sett svona pera í endann á þeim svo álag myndi dreifast betur. Brýr á 2. og 9. voru hækkaðar og lagaðar. Smá vinna er eftir á 2 braut. Keyrt var í flesta stíga betra efni. Reynt var að minnka brekkur þar sem það var mögulegt. Eins voru nokkrir breikkaðir þar sem þess var þörf.
Eins voru búnir til nokkrir nýir stígar. Má þar helst nefna frá brúnni á 9. fram hjá rauða teignum og inn að braut. Stígar við 11. teigana bæði gula og rauða, nýr stígur frá 13 flöt að 14 teignum sem og meðfram 17 teig .
Svo voru langflestir stígar lagaðir. Lauslega reiknað um 2,5 km. Í þetta fóru um 900 m3 í heildina með undirlagi undir steypuna.
Það má áætla að tímastundir sjálfboðaliða í sumar séu í kringum 2.500 klukkustundir.(fyrir utan vinnudag).

Því má nefna hér í restina að það er mikil vinna enn eftir til að klára þetta, svo gott væri að fá hjálp í vor frá ykkur aftur. Mig langar að að þakka öllum kærlega fyrir hjálpina í sumar og haust. Hef unnið á mörgum golfvöllum yfir ævina og aldrei hef ég orðið vitni af öðrum eins framkvæmdum á einu hausti. Þetta var hrikalega gaman að vera úti á velli að vinna og yfirleytt á þessum árstíma er 1 starfsmaður en oft í sumar voru 4-10 karlar nánast í fullri vinnu hjá okkur.
Langar að þakka stjórn klúbbsins, formanni, formanni vallarnefndar sem ég er í mestum samskiptum við. Einnig langar mig að þakka Þórhalla sem ég held að viti ekki ennþá að hann hafi hætt hjá klúbbnum á síðasta ári. Hann er allavegana búinn að vinna nánast jafn mikið og ég. Eins Guðnýju konunni hans fyrir að hafa boðið mér í kaffi og vöfflur þegar það var unnið frameftir.
Kveðja Birkir Már

Félagsfatnaður
Stella Hafsteins kynnti til sögunnar nýtt og glæsilegt útlit á félagsfatnaði. Jakkar, húfur, peysur, bolir og buxur standa nú félagsmönnum til boða að kaupa á góðu verði. Þeir sem ætlað að næla sér í sérmerktan fatnað geta mátað og pantað í Golfskálanum Bíldshöfða 16. Pantanir eru teknar til 15. mars 2021. Einungis hefur verið pantað fyrir 170 manns þannig að um að gera að drífa sig á staðinn og panta.

Því næst þakkaði fundarsjóri Hjörleifur B Kvaran fyrir sig og óskaði nýkjörinni stjórn velfarnaðar og þakkaði vel sóttan fund.

Börkur sleit því næst fundinum með þeim orðum að s.l. 2 ár hefðu verið mjög góð og vonar að svo verði áfram. Hann hvetur jafnframt fundarmenn til þess að aðstoða við að fjölga meðlimum í klúbbnum

Fundi slitið kl 14.15.
Jónas Kristinsson, fundarritari. 


Eftir Börkur Arnvidarson 16 Apr, 2024
Vertu með okkur í sumar!
04 Jan, 2024
Innheimta á félagsgjöldum GKB 2024
22 Dec, 2023
Jólakveðja frá Golfklúbbi Kiðjabergs
Eftir Valur Jónatansson 18 Dec, 2023
Guðmundur endurkjörinn formaður GKB. Félagsmönnum fjölgaði á árinu og eru nú 431 talsins
Eftir Valur Jónatansson 14 Dec, 2023
Framtíð Kiðjabergsvallar - Fjárfestingar í vökvunarkerfi, skemmu og vélarbúnaði
04 Dec, 2023
Aðalfundur GKB haldinn 18. desember í húsnæði Samtaka Iðnaðarins
Eftir Valur Jónatansson 22 Nov, 2023
Gefðu golfhring í jólapakkann
Eftir Valur Jónatansson 16 Nov, 2023
Jólahlaðborð verður 9. desember
Eftir Valur Jónatansson 07 Nov, 2023
Aðalfundur GKB!
Eftir Valur Jónatansson 07 Nov, 2023
Golfsumarið var frábært
Fleiri færslur
Share by: